Færsluflokkur: Lífstíll

Fjórða vikan að hefjast

Þá er helgin búin og sömuleiðis vigtunin.  Vigta mig alltaf á laugardagsmorgnum og hún sagði í þetta skiptið 94,5 kg.  Var bara mjög ánægð með það, missti 0,8 kg í þessari viku og get ekki verið óánægð með það Smile.

Var með sukkdag á laugardaginn og var hann bara mjög fínn.  Mér finnst nefnilega ágætt að hafa eitthvað svona til að hlakka til því ég er ferlegur nammigrís.  Ef ég mætti við því þá myndi ég borða nammi á hverju kvöldi.  En þar sem ég er allt, allt, allt of þung og í lélegu formi þá myndi ég aldrei gera það.  Hætt því hér með!!

Mér finnst eiginlega sunnudagur vera langerfiðasti dagurinn til að standa mig.  Það er ennþá helgi og maður á kannski ennþá nammi frá laugardeginum.  Svo þarf ég eiginlega að pína sjálfa mig áfram að fara í ræktina.  Fór á ofurtækið mitt í gær í hálftíma.  Síðustu fimm mínúturnar fór ég algjörlega bara á þrjóskunni.  Píndi mig gjörsamlega áfram, var alveg búin á því.

Er búin að ákveða að vera ekkert að stressa mig að missa mikið í hverri viku.  Á meðan ég er að missa eitthvað er ég ánægð Grin.


Áfram svo

Það er varla að maður þori að skrifa um eitthvað eins ómerkilegt og átakið sitt þegar svona mikið umrót er í þjóðfélaginu en ég læt mig samt hafa það.

Þetta gengur ennþá vel hjá mér, æfi fimm til sex sinnum í viku.  Ætla alltaf að ná fimm sinnum í viku, er ekkert of stressuð þó ég nái ekki sjötta skiptinu.  Er ekki viss hvort að Ágústa og félagar séu að gera sig fyrir mig.  Finnst ég fá miklu meira út úr því að fara á ofurtækið mitt Wink

Ætlum hjónin að skreppa í bíó í kvöld og þá verður sko spennandi að sjá hvort mín nái að standast freistinguna að fá sér popp!!


Þriðja vigtun

Þá er helgin búin og líka nammidagurinn minn.  Hef verið mjög óánægð með síðustu tvo nammidaga.  Hef einhvern veginn náð hæpa (smá sletta!!) þá upp og svo verð ég alltaf fyrir vonbrigðum.  Er búin að hlakka til alla vikuna að fá aðeins að sukka en svo þegar ég er búin að því vil ég bara fara að æfa aftur.

Vigtaði mig á laugardaginn og var 95,3 kg.  Hélt að ég yrði búin að missa aðeins meira því mér fannst ég hafa verið svo dugleg í vikunni.  Æfði mikið og borðaði lítið.  En svo þegar ég fór að hugsa út í það þá kannski borðaði ég ekki mikið en svolítið vitlaust.  Var t.d. alltaf að fá mér kakó í morgunkaffinu í vinnunni, ætla núna að prófa að drekka grænt te.  Finnst það reyndar ekkert voðalega gott en ætla að pína mig í viku og sjá hvernig ég verð.

En þannig séð er ég alveg ánægð með að hafa misst hálft kíló.  Ef ég næ að missa hálft kíló að meðaltali í langan tíma verð ég sátt Smile  En nú er bara að halda áfram, nú fyrst verður þetta erfitt.  Mér finnst nefnilega voðalega auðvelt og gaman að byrja í átaki, sérstaklega þegar gengur vel fyrst.  En alltaf aðeins erfiðara að halda þetta út.


Harðsperrur dauðans

Eigum við að ræða þetta eitthvað??  Er að tala um að ég get varla gengið núna svo slæmar eru harðsperrurnar.  Svo hefur það kannski líka eitthvað að segja að ég er ekki beint unglingur lengur. 

Tók smá fitubrennslu með Ágústu og félögum áður eiginmaðurinn kom heim með börnin eftir vinnuna.  Mér er alveg sama þó að börnin mín sjái mig gera þessar eróbikkæfingar.  Þeim finnst mamma sín vera alveg rosalega dugleg og finnst bara gaman að hoppa með.  En ég get einhvern veginn ekki látið manninn minn sjá mig gera þetta.  Ég veit að þetta hljómar asnalega en ég verð eitthvað svo ferlega meðvituð um það sem ég er að gera þegar þegar hann horfir á því ég veit að ég lít ekkert of vel út í þessu Smile 


Ennþá í gangi

Er ennþá alveg ótrúlega jákvæð.  Vorum að tala um það við hjónin í gærkvöldi hvað þetta væri nú að ganga vel hjá okkur og svona.  Ákvað síðan að dempa þetta aðeins niður hjá mér og reyna að vera raunsæ.  Hugsa frekar um hvernig þetta gengur í dag en ekki hugsa nokkra mánuði fram í tímann.  Er jákvæð í dag og það finnst mér skipta mestu máli.

Er búin að ákveða að fá góð verðlaun þegar ég kemst niður í 85 kg og vonast til að vera komin niður í þá þyngd í sumar.  Eins og ég sagði þá ætla ég að vera raunsæ í þessu núna.

Stefnan er síðan sett á að reyna að vera komin í 75 kg næstu jól.  En nú er bara að halda þetta út.  Svolítið spennt að vita hvað ég verð að skrifa hérna inn eftir þrjár vikur, s.s. hvort ég verð áfram eins jákvæð Tounge


Ánægð

Er nú bara nett ánægð með árangurinn eftir fyrstu vikuna.  Fór á vigtina í gærmorgun og hún sagði mér að ég væri 95,8 kg.  Það þýðir að ég náði að missa 2,2 kg á fyrstu vikunni.  Er bara mjög ánægð með það. 

Er reyndar búin að fara nokkrum sinnum í svona átak og veit því vel að það fer nánast alltaf svona mikið á fyrstu vikunni.  Maður er náttúrulega búin að vera í þvílíku sukki sérstaklega um jólin og því er ekkert skrýtið að maður missi svona mikið þegar mataræðinu og öllu er snúið algjörlega við.  Er að vonast til að missa svona að meðaltali 0,5 kg á viku.  Ég held að það sé alveg raunhæft, sérstaklega svona fyrst um sinn þar sem ég hef svona mikið að missa.

Vorum með nammidag á heimilinu í gær.  Ætlaði að borða aðeins meira nammi en ég gerði því maginn á mér sagði bara stopp.  Fékk þvílíkt í magann í gærkvöldi og var ekki búin að jafna mig fyrr en um hádegið í dag.  Langar því voðalega lítið í nammi í dag og náði meira að segja góðri æfingu með henni Ágústu vinkonu minni.


Allt að byrja

Þá er fyrsta vikan mín næstum búin.  Er orðin töluvert spennt fyrir fyrstu vigtun á morgun.  Gott að hafa vigtun á laugardagsmorgnum, þá passar maður sig líka á föstudögum.  Var alltaf einu sinni með vigtun á föstudagsmorgnum en þá var ég líka alltaf með tvo nammidaga.  Ekki gott!!

Ég er nú alveg hæfilega bjartsýn.  Er held ég búin að standa mig alveg bærilega þessa vikuna.  Er ekki búin að detta í neitt sukk og er búin að ná að æfa mig ágætlega þessa vikuna.  Er búin að vera á ofurtækinu mínu (svipað og í vörutorginu) og vera að lyfta líka.  Svo fjárfesti í ég Ágústu Johnson fitubrennslumyndbandi.  Ég er búin að prófa þetta tvisvar í vikunni og ég verð nú eiginlega að viðurkenna að mér líður hálf bjánalega að vera að sprikla fyrir framan sjónvarpið.  Að auki er ég líka ekki sú flinkasta í eróbikkinu og því eru aðfarirnar örugglega alveg jafn asnalegar og mér líður að gera þær Smile.  En hvað um það, ég svitnaði að minnsta kosti. 

Jæja, tek ágætlega á því í kvöld og massa svo vigtunina á morgun.


Mikið var!!

Jæja þá er þetta byrjað hjá mér.  Eftir sirka tveggja vikna sukk er átakið byrjað.  Eins og hjá mörgum öðrum þá er þetta langt frá því að vera í fyrsta skipti sem það á sko aldeilis að taka á því.  Er bara alveg komin með nóg af ástandinu á sjálfri mér.

Er ekkert að fara að gera neitt drastíkst.  Ætla bara að borða hollara og aðeins minna, samt ekkert að svelta mig neitt.  Ætla bara að gera þetta skynsamlega.  Auk þess náttúrulega að hreyfa mig meira.  Þetta virkar, hef náð árangri með þetta fyrir nokkrum árum síðan þegar ég missti rúmlega tuttugu kíló.  Var þá bara nokkuð sátt með mig.  Á meðan á þessu stóð náði ég loksins eftir að hafa reynt lengi að verða ófrísk.  Stuttu eftir að ég eignaðist fyrra barnið mitt varð ég ófrísk af því síðara.  Eftir að það kom í heiminn var ég nánast aftur komin í þá þyngd sem ég var í áður en ég byrjaði í átakinu.  En hvað um það, þetta var alveg þess virði.

Ætla mér að skrifa hérna inn hvernig gengur og setja inn hvernig gengur í viku hverri.  Er aðallega að gera þetta til að halda sjálfri mér við efnið.  Ef ég hugsa mér að það séu einhverjir ímyndaðir að lesa þetta hjá mér þá er það smá spark í rassgatið að falla ekki í sama farið aftur.

Upphafleg þyngd, laugardaginn 3. janúar er 98 kg.


« Fyrri síða

Um bloggið

Dóra í átaki

Höfundur

Dóra
Dóra

Rúmlega þrítug tveggja barna móðir sem er komin með nóg af sjálfri sér. Ætla því að reyna að minnka aðeins.

Vigtunartölur
(smella á myndina)

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband